Stefán Pálmason

Stefán Pálmason starfar sem munnlyflæknir á Landspítala Háskólasjúkrahúsi og sér um kennslu í munnlyflækningum við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Hann rekur einnig einkastofu með sífellt aukna áherslu á lyflækningar munns og tannlækningar í veikum.

Stefán útskrifaðist frá tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 2009. Á árunum 2010-2012 nam hann lyflækningar munns við Harvard School of Dental Medicine og Brigham and Women´s Hospital.

Stefán hefur lokið skriflega hluta American Board of Oral Medicine diplómat prófanna og hefur haldið fyrirlestra bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig skrifað fræðigreinar og bókakafla með áherslu á munnvandamál í tengslum við krabbameinsmeðferðir og tengsl HPV við munnkokskrabbamein. Eftir að hafa lokið námi sínu í Boston fluttist Stefán til Reykjavíkur og hefur unnið að uppbyggingu sérgreinarinnar á Íslandi.

 

Fyrirlestrar:

Það sem tannlæknar þurfa að vita um HPV og munnkokskrabbamein (Stefán Pálmason)

Vörtuveirur (HPV) hafa lengi verið þekktar fyrir að valda breytingum víða á húð-/slímhúðarsvæðum og er munnholið algeng staðsetning fyrir HPV-tengdar breytingar. Það má skipta vörtuveirum í hættulitlar og hættumiklar eftir því hversu krabbameinsmyndandi þær geta verið en illkynja breytingar af völdum HPV hafa verið algengar á ákveðnum stöðum líkamans (sérstaklega í leghálsi). Lengi hefur verið þekkt að góðkynja HPV-tengdar breytingar geti myndast í munnholi og munnkoki en á undanförnum 20-30 árum hefur tíðni munnkokskrabbameina af völdum HPV farið hratt hækkandi. Þessi fyrirlestur mun fara í gegnum það sem tannlæknar þurfa að vita um góðkynja og illkynja HPV-tengdar breytingar í munnholi og munnkoki.

 

Tannlækningar í krabbameinssjúklingum (Stefán Pálmason)

Á meðan krabbameinsmeðferðum fleygir fram fjölgar skjólstæðingum tannlækna sem hafa sögu um krabbamein og krabbameinsmeðferðir. Eins eru ört fleiri krabbameinssjúklingar meðhöndlaðir á dagdeildum og tími á legudeildum hefur minnkað í stöðugri viðleitni til að auka lífsgæði þessa hóps. Flestir krabbameinssjúklingar geta verið meðhöndlaðir hjá sínum heimilistannlækni en það skapar mikilvæg þægindi og öryggi fyrir þessa einstaklinga. Það er því mikilvægt fyrir heimilistannlækna að hafa þekkingu á ráðgefandi leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út varðandi tannlækningar í þessum sjúklingahóp. Algengar aukaverkanir krabbameinsmeðferða eru ónæmisbæling, blæðingaráhætta og áhrif á græðslu vefja. Þessar aukaverkanir geta haft mikil áhrif á birtingarmynd tannsjúkdóma en ekki síður á ábendingar og meðferðarmöguleika á mismunandi stigum í meðferðarferlinu. Þessi fyrirlestur mun einblýna á forvarnartannlækningar fyrir ákveðnar krabbameinsmeðferðir, bráðatannlækingar á meðan krabbameinsmeðferðum stendur og langtímaáhrif krabbameinsmeðferða sem geta haft áhrif á tannlækningar til langs tíma.

Íslandsmót ehf | Suðurlandsbraut 4a | 534 7010 | info@islandsmot.is | kt: 500106-1740

Íslandsmót Ehf. | Suðurlandsbraut 4a | 534 7010 | info@islandsmot.is | kt: 5001061740

Íslandsmót Ehf. | Suðurlandsbraut 4a | 534 7010 | info@islandsmot.is | kt: 5001061740

Íslandsmót Ehf. | Suðurlandsbraut 4a | 534 7010 | info@islandsmot.is | kt: 5001061740